Tuesday, March 08, 2011

Frestunarárátta?

Ég fattaði það í gær að ég er ekki alveg manneskjan sem ég hélt ég væri - já, shocking að ég hafi einungis áttað mig á því í gær. En mér finnst það skemmtilegt, og bera vott um unglinginn í mér. Þar sem ég hef ákveðið að verða seint eða aldrei fullorðin - mögulega að vera samferða Lilju Dögun í þessu öllu bara. Getum verið BFF's, sem er alls ekki leim eða vandræðalegt fyrir hana.

Ég nefnilega vil (og hélt lengi vel að ég væri) vera rosalega húsmóðurleg í mér - svona KONA sem bakar alla sunnudaga og býður fólki í kaffi og mat hægri vinstri, saumar eigin föt og 'brasar'. Þannig var ég í hausnum á mér, og trúði því svo sannarlega.

Þar til í gær að ég áttaði mig á því að það er búið að vera ljóslaust inn í herbergi í rúman mánuð núna.. afhverju? Nú afþví að það er svooo mikið mál að skipta um ljósaperu í loftljósinu. Og þegar peran sprakk fyrir fjórum vikum síðan.. yppti ég öxlum og náði í lampa inn í stofu í staðinn.. tók hann úr sambandi, losaði flæktar snúrur, fór með hann inn í herbergi - útbjó náttborð undir hann sem ég klæddi og stakk honum að lokum í samband. Hann fittaði ekki alveg nógu vel þarna, svo ég breytti aðeins inn í herbergi svo það passaði allt betur saman. Og voila! Ljós! Þessu nennti ég, en að skipta um ljósaperu í loftljósinu? Nei!

Alveg eins og þegar það fór pera inn í eldhúsi.. þá tók það mig tæpa tvo mánuði að KAUPA eina peru. Sem minnir mig á það, útiljósið er líka farið.

Í gær áttaði ég mig líka á því að ég var að þvo sömu vélina í þriðja sinn! ÞRIÐJA SINN. Afhverju? Nú.. ég gleymi alltaf að taka úr henni! Ég skrifaði viljandi 'gleymi'.

Inn í herbergi er ég með kósý stól sem hægt er að láta fara vel um sig í og lesa.. en það er bara ekkert pláss. Ég nefnilega ákvað fyrir nokkrum vikum að fara í gegnum fataskápinn minn og losa mig við föt sem ég nota ekki.. og þarna eru þau bara enn. Og ég ekki búin að fara í gegnum þau. Svo þegar ég tek af snúrunni, hreina þvottinn.. þá huxa ég með sjálfri mér: Jah, það tekur því nú varla að ætla að fara að brjóta hann saman áður en ég fer í gegnum hin fötin.. svo nýja hrúgan endar bara ofan á þeirri gömlu.

Í síðustu viku fór ég með sumardekkin heim til mömmu og pabba - eftir að hafa rúntað með þau í bílnum síðan í desember.

Ég og frestunaráráttan mín lifum góðu lífi saman.

Monday, August 16, 2010

Ó hún Jóhanna!

Ég fór á Fiskidaginn mikla á Dalvík um daginn, og auðvitað á súpukvöldið á föstudeginum sem að mínu mati er yfirleitt töluvert skemmtilegra en laugardagskvöldið. Áður en að bærinn fylltist af hungruðum villimönnum fékk ég mér stuttan göngutúr, bæði til að róa skapið mitt sem rann aðeins á undan mér vegna óskemmtilegra aðstæðna, og vegna þess að fólkið mitt var allt komið í heimahús og beið mín þar.

Á leiðinni, í rigningunni hitti ég kunningja minn síðan fyrir nokkrum árum - við deituðum í smá tíma og það er möguleiki á því að við höfum skipst á munnvatni nokkrum sinnum líka. En það var þá. Einhverra hluta vegna verðum við alltaf jafn vandræðaleg þegar við hittumst, en heilsumst nú samt alltaf - og gerum alltaf heiðarlega tilraun til að halda uppi samræðum, sem útaf fyrir sig er auðvitað hetjulegt af beggja hálfu.

Í þetta sinn rákumst við bókstaflega á hvort annað, svo ekki varð hjá því komist að heilsast og bæði hálf móðursjúk og alltof hress og brosandi. Samtalið var svohljóðandi: (nöfnum hefur verið breytt)

Ég: Hæ! Vá! Hæ! En gaman! Hæ!
Hannibal: Hahahahaha! Nei meina, hahahaha! Hæ! Já, gaman að sjá þig! Hæ.

----þögn----

Ég: Er ekki gott að frétta bara?
Hannibal: Rosalega gott! Bara virkilega gott! Allt gott.
Ég: Gott að heyra! Já, það er gott.
Hannibal: Já, það er gott! Mjög gott bara. Hvað með þig?
Ég: Gott! Einmitt. Bara rosa gott. Gott.

----þögn----

Hannibal: Hey, djók. Hérna, þetta er Jóhanna.

Þá tók ég eftir stelpunni sem hafði staðið við hliðina á honum eins og illa gerður hlutur, þessar sársaukafullu tvær mínútur sem við stóðum þarna eins og fífl.

Ég: Sæl Jóhanna, ég heiti Alfa.
Jóhanna: Hæ.

Þarna tók ég eftir því að Hannibal var orðinn hálf grænn í framan, og Jóhanna leit út fyrir að hafa orðið vitni að einhverskonar glæp. Ég tók því sem mínu kjúi, kvaddi snögglega og nánast hljóp áfram. Þó ekki áður en ég hálf-hrasaði niður af kantsteininum, lenti í fanginu á eldri hjónum og skokkaði, já.. skokkaði af stað. Ég held að ég hljóti að hafa haldið að ef ég myndi bara skokka, þá liti ekki útfyrir að ég hefði hrasað, og hent tösku nær sjötugrar konu í götuna - án þess að taka hana upp.

Seinna um kvöldið hitti ég Hannibal aftur, þá var hann einn. Þá kom líka í ljós að stelpan hét ekkert Jóhanna, hún hét Inga.

Wednesday, November 18, 2009

Fjölskyldan og síminn.

Mamma hringdi í gær, og um leið og ég sá að þetta var hún leit ég á klukkuna og byrjaði að taka tímann til að sjá hvort okkur tækist ekki að slá einhver met. Afþví að þrátt fyrir það að mér finnist einstaklega leiðinlegt að tala í símann þá virðast öll okkar símtöl fara yfir klukkutímann. Og við tölum saman nánast daglega.

Ég hringi kannski til að spyrja hvernig eigi að sjóða kartöflur, og klukkutíma seinna kann ég að gera mjólkurgraut og búin að taka ákvörðun um það hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. En mömmu þykir yfirleitt ekkert skemmtilegt að tala í símann heldur, og yfirleitt er hún farin að reyna að kveðja mig eftir að meðaltali tvær mínútur. Þá heyrist: 'Jæææja..' og ég veit að það er merkið mitt, og ég ætti að kveðja í snatri en í staðinn bít ég það í mig að verða fyrri til að kveðja svo ég held henni á línunni gegn eigin vilja og þumbast við að finna umræðuefni til að vinna keppnina.

Okey, það er of margt fáránlegt við þetta til að ég geti einu sinni talið svo hátt, þar sem ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru engin verðlaun í enda samtalsins/keppnarinnar. Ég veit það alveg. En það er bara svo gaman að vinna. Og ég er viss um að mamma situr alveg steinhlessa eftir hvert samtal, klórandi sér í hausnum á meðan hún veltir því fyrir sér hvaðan öll þess orð hafi komið?! Þar sem hún er nú ekki þekkt fyrir að vera kona margra orða og hennar helsta mottó er; Fæst orð bera minnsta ábyrgð. HAH, Á ÞIG!

Tengt: Ég á það til að snúa ótrúlegustu hlutum upp í keppni, og man mjög skýrt eftir því í ræktinni um daginn þegar ég var á hlaupabrettinu við hliðina á vinkonu minni, sem ég kýs að kalla Vélmennið, og ég sá að hún var að hlaupa á meiri hraða en ég, og þar af leiðandi að brenna fleiri kaloríum, var ég ekki lengi að bæta í hraðann og hækka hann upp í HJARTAÁFALL, og hætti ekki að hlaupa þrátt fyrir svima og blóðbragð og öskrandi lungu. Svo þegar hún stoppaði og hoppaði af brettinu eins og ekkert væri, gat ég dáið sæl, ælandi blóði - því ég hljóp 20 metrum lengra en hún! SUCK IT!

Annars á ég litla systur sem er sennilega lokaðasta manneskja sem ég þekki, og stundum þegar við spjöllum saman þá líður mér eins og ég þurfi að draga upp úr henni orðin, þó við séum bara að ræða átfittið á Justin Timberlake. Hah, sénsinn. Við myndum aldrei leggjast svo lágt að ræða JT. En hún er einmitt þannig að hún leggur hálfgert fæð á síma og símtöl, og það er eiginlega hending ef hún svarar símanum. Stundum hringi ég án þess að hafa nokkuð að segja, þar sem mér dettur ekki einu sinni til hugar að hún svari. Svo ef svo ólíklega vill til að það gerist stama ég mig í gegnum allar 40 sekúndurnar sem samtalið tekur.

Sjáiði til, þetta eru í alvörunni ekki ýkjur - eftir fyrsta HÆ-ið byrjar hún að reyna að kveðja, svo það krefst mikillar ákveðni og hugrekkis að halda henni í símanum þessar 40 sekúndur. Eins og, ég er kannski að tala við eldri systur mína og hún hefur orð á því að hún hafi talað við litlu systur okkar í símann, og þegar ég spyr hversu lengi samtalið entist er hún alveg, EINA OG HÁLFA MÍNÚTUR, BITCHES!

Stundum eru símtölin við hana eins og, Ef ég skelli ekki á NÚNA, gæti einhver dáið. Bless.

Ég stríði henni afþví að ég elska hana, hún veit það, þó ég eigi alveg eins von á símtali frá henni innan skamms, sem endist í fjórtán sekúndur þar sem hún kallar mig kúkalabba.

Ég gleymdi samt að segja ykkur, ég á í svipuðu sambandi við símann minn og hún - nema hvað að ég er meira svona, HVAÐ? HVAÐ VILTU? Og svo er ég ekkert nema kurteisin uppmáluð það sem eftir lifir samtalsins.

Þannig að þið sjáið, þessi taugaveiklun og þetta almennt álitið skrýtna samband við símann, er arfgengt. Genatengt, og því ekki mér að kenna.

Saturday, November 14, 2009

Næst kynni ég hana fyrir John Mayer.

Ég man mánuðina áður en Lilja fæddist, hve ég kveið því að þurfa að hlusta á endalausa barnatónlist, og hafði áhyggjur af því að hvort tveggja græjunum heima sem og útvarpinu í bílnum yrði rænt af sándtrakkinu úr Pocahontas eða Stubbunum. Ég hef nefnilega verið í bíl með vinum, þar sem allar samræður fóru fram hálf öskrandi yfir manískri útfærslu Jónsa á lagi úr Ávaxtakörfunni, því ef við reyndum að hlusta á eitthvað myndu börnin aftur í þjást af heilaskaða sökum þess að halda niðrí sér andanum á milli öskra. Þið vitið, þegar börn 'gráta', en eru í raun bara að öskra - og ákafinn er svo mikill að þau anda hreinlega ekki á milli, svo maður er farinn að bíða eftir því að æðin í enninu á þeim springi og krakkaheili dreifist smekklega yfir bílsætin.

Það er reyndar ekki búið að vera vandamál með Lilju, þar sem að í fyrsta lagi vorum við mjög 'varkár' þegar hún var minni, að kynna hana aldrei fyrir tónlist sem var einungis ætluð þessum og þessum aldurshópi. Reyndar, rétti hún okkur oftast fjarstýringuna að sjónvarpinu þegar Michael Jackson var í gangi, nú eða Metallica sem var hennar persónulega uppáhald. Og þá sérstaklega þetta HÉRNA.

Yfir þessu lagi sat hún dolfallin. Eins og mamman reyndar.

Eitt af hennar uppáhalds lögum var líka 'Beat it' með Michael Jackson - og oftar en ekki tókst mér að sleikja úr henni fýluna með því að spila það nógu hátt og dansa með henni í stofunni. En nýlega varð hún þreytt á því, og hefur uppgötvað Söngvaborg, sem Hulda systir gaf henni. (Fyrir mína tilstilli þó!) En mér finnst mjög þægilegt að skella skuldinni á Huldu eða mömmu - þær kynntu Lilju fyrir súkkulaðiköku og rjóma til dæmis, og nú má ég ekki baka súkkulaðiköku án þess að barnið taki frekjukast, hlaupandi á veggi og hurðir ef hún fær ekki smá smakk.

Tengt: þegar við vorum upp á spítala um daginn, og Lilja hafði ekki drukkið vökva í fleiri fleiri daga, prófaði ein hjúkkan að gefa henni kókómjólk, sem ég hef staðfastlega bannað Lilju að drekka. Þetta er vissulega minn uppáhaldsdrykkur, en er fullur af sykri svo ég hef ekki viljað leyfa Lilju að smakka. En þar sem þetta var það eina sem hún fékkst til að drekka allan tímann sem hún var lasin, keypti ég ógrynnin öll af þessari sykurleðju og mataði hana á þessu - núna er ég í vandræðum því auðvitað heimtar barnið sína óhollustu og skilur ekkert afhverju mamma er allt í einu farin að banna það! Úbbs.

Allavega, hvað var ég að segja.. já, Söngvaborg! Núna er það það eina sem hún fæst til að hlusta á - og ég gretti mig í sársauka í hvert sinn sem hún réttir mér spóluna til að setja í. Sérstaklega þar sem ég er farin að kunna öll lögin utan að, og stend mig oft að því að vera raulandi lögin yfir matseldinni eða jafnvel skólabókunum. En auðvitað læt ég það eftir henni, afþví að hún er svo fjári krúttleg - og þetta er fyrsta tónlistarkvölin sem ég hef þurft að ganga í gegnum með hana.

Ég veit, ég veit - núna eru allir sem eiga táninga alveg, BÍDDU BARA, og ég geri mér fulla grein fyrir því sem er framundan. Ég var nefnilega einn af þessum táningum, og ég vona bara að foreldrar mínir geti einhvern tíma fyrirgefið mér fyrir Scooter og Haddaway tímabilið.

Friday, November 13, 2009

Svefnleysi - pynting

Lilja hefur nýlega, sennilega eftir undanfarin veikindi, öðlast nýjan skilning á setningunni; Ætla að myrða móður mína með því að svipta hana svefni. Það er hegðun sem hún fullkomnaði á fyrstu sex mánuðum ævi sinnar. Núna snýst það minna um að gráta vegna þess að hún er svöng, eða bara illgjörn (ekki láta neinn segja ykkur annað en að börn gráti af annarri ástæðu en illgirni, þessi börn, þessi vondu, vondu börn), og meira um einhverskonar hræðslu við 'eitthvað' í herberginu hennar.

Trekk í trekk í trekk... (you catch my drift) hleyp ég inn til hennar, og kem að henni þar sem hún stendur í rúminu sínu, starandi á eitthvað sem enginn sér nema hún. Svo slær hún botninn alveg úr þegar hún bendir skelfingu lostin á eitthvað - svo hárin rísa á hnakkanum á mér og ég gríp hana undir handlegginn, reyni að reka hausinn á henni ekki í hurðarkarminn í látunum, hleyp í blindni inn í herbergið mitt og skelli á eftir okkur hurðinni.

Ég hef enga hugmynd um hvað gæti haft svona djúpstæð áhrif á hana. Okey, kannski hef ég hugmynd. Kannski er það helvítis gúmmífroskurinn sem ég svo eftirminnilega skaðaði hana fyrir lífstíð með.

Meira að segja þegar ég reyni að róa hana, það er að segja þegar ég hleyp ekki með hana í fáti útúr herberginu, eins og ég sé að hlaupa með pakka á pósthúsið daginn fyrir jól, þá horfir hún bara í gaupnir sér, snökktir hljóðlega og leggur aðra hönd yfir augun. Eins og hún sé enn og aftur að endurlifa hræðilega augnablikið þegar hún mætti frosknum í fyrsta sinn.

Yfirleitt pæli ég lítið í þessu, þar sem hún sýnir sömu viðbrögð við ýmsum mat - þá meina ég, ég set hana í matarstólinn og matinn fyrir framan hana og hún rekur upp skaðræðisöskur, reygir sig eins langt frá borðinu og er líkamlega mögulegt og grípur um ennið á sér. Dramadrottning? Á dögum þegar mér stendur á sama, veifa ég disknum framan í hana glottandi. Til að hefna mín fyrir þessa fyrstu sex mánuði, þegar hún var ekkert nema illgirnin uppmáluð.

Svo það lítur allt út fyrir það að þessi þrjóski ormur, sem er greinilega ekki hrædd við að hafragrauturinn feli sig í skápnum hennar og ráðist á hana, sé hrædd við skriðdýr. Og hún heldur að þau sé í herberginu hennar á næturnar, tilbúin að éta á henni andlitið. Ég er að sjálfsögðu full samúðar, þar sem ég er ekkert sérstaklega hrifin af froskum eða öðrum skriðdýrum sjálf - en ég bara hreinlega sef ekki ef hún er við hliðina á mér! Kannski er ástæðan sú að bæði hendur og fætur virðast losa sig frá líkama hennar og finna sér stað einhversstaðar á mínum? Eða hvernig hún virðist vakna á hálftíma fresti til að öskra á mig fyrir að koma við hana að fyrrabragði? Kannski er það að loksins þegar ég næ að dotta, hrekk ég oftar en ekki upp við að hún situr við hliðina á hausnum á mér, hallar sér fram - eins og til að athuga hvort ég andi, eða gefa mér munn við munn, og starir þannig á mig.. í þögn. Það er ekki bara krípí í Children of the corn og Chucky myndunum skal ég segja ykkur.

Ég hreinlega get þetta ekki lengur. Og þegar hún vaknar á næturnar fer ég þolinmóð, full góðum ásetningi inn til hennar og legg hana aftur niður. Segi henni að skriðdýrin éti bara andlit á daginn.

En það verður erfiðara og erfiðara, því lengur sem ég er svefnlaus - að leggja hana aftur niður í rúmið sitt. Því það þýðir um það bil tíu ferðir fram og tilbaka, nokkrar mínútur í klapp á kollinn, kossa og fullvissu um enga drauga og engin skriðdýr - nokkrar mínútur í að hlusta á hana bylta sér, snúa sér.. then rinse and repeat. Og ég bíð eftir því að hún átti sig á því að ég er uppalandinn, og ég ræð. Ég stend á mínu! Svo eru það þessi litlu hikandi augnablik, eins og núna - þegar ég er að bilast af svefnleysi og ég horfi á hana með uppgjöf og huxa með mér; Guð, hef ég þolið í þetta? Hvað ef ég hunsa hana bara? Hættir þetta þá? Og svo BÚMM. Liljurass í andlitið, fingur í mömmunefi, störukeppni og öskur. Aftur.

Í morgun vorum við Lilja að lita áður en pabbi hennar kom að ná í hana, við ákváðum að teikna fjölskylduna okkar - mömmu, Lilju og Míu. Ég teiknaði persónurnar og Lilja litaði vandlega. Og þegar ég segi 'vandlega', þá meina ég.. það voru strik.. og nokkur 'S' held ég. Og þegar kom að því að lita mömmu gömlu, valdi hún lime (lesist: gubb) grænan lit. Svo ég rétti henni litinn og var alveg, 'Gaur, er mamma lasin? Er mamma með ælupestina?'

Lilja lét eins og hún heyrði ekki í mér, og vandaði sig mikið við verkefnið.

Svo ég leit beint á hana, náði augnsambandi og sagði, 'Er mamma kannski bara græn af þreytu? Afþví að hún á litla stelpu sem hreinlega neitar að sofa í rúminu sínu?'

Þá lagði hún frá sér litinn, veifaði mér að taka sig, lagði höfuðið á öxlina á mér og klappaði mér á bakið. Eins og til að segja, 'Mamma kjáni, ég er bara að passa þig. Það er nú kominn dagur, og skriðdýrin borða andlit á daginn.'

Saturday, October 31, 2009

7 mínútur í Himnaríki.

Ímyndið ykkur mig með hjálm á hausnum, sitjandi undir eldhúsborðinu til að forðast steina og beitta hluti, og mögulega skítugar nærbuxur sem kastað er í mig. Það eru fá umræðuefni sem hafa jafn mikil áhrif á foreldra, sem og aðra, og það sem ég er að fara að minnast á. Þetta er svona svipað og pólitík og trúmál - hlutir sem þú minnist ekki á í blönduðum félagsskap - því að í staðinn fyrir að vera kölluð heiðingi eða afturhalds kommatittur, verð ég kölluð barnamorðingi, eða jafnvel morðingi saklausra sála.

Kæra Internet, þegar Lilja var um það bil þriggja mánaða - lét ég hana gráta sig í svefn. Hæ, ég heiti Alfa og ég er sálarmorðingi.

Þegar ég sagði frá því, var mér tjáð það að þegar ég dey og stend frammi fyrir Guði muni hann ekki minnast á öll þau skipti sem ég stunda kynlíf utan hjónabands, eða þessi fáu skipti sem ég reykti marijúana og varð svo paranojuð að ég læsti mig inn á baði - því allir vita að löggan leitar aldrei á baðherberginu - eða sú staðreynd að mér finnst Scotty Pippin kynæsandi, nei. Guð mun hrista höfuðið og spyrja mig hvers vegna ég elskaði ekki barnið mitt. Og ég verð dæmd til að deila koju með Boy George, í klefa við hliðina á almenningsklósettinu í Helvíti.

Svefnmálin hjá Lilja voru virkilega flókin. Hún borðaði aldrei almennilega á daginn, en bætti það svo upp á næturnar - með því að vakna á ca 40 mínútna fresti til að drekka. Og hún vissi sko alveg hvað það var sem hún vildi, hún átti það til að öskra, og öskra, og öskra.. og öskra aðeins meira. Að auki, mátti aldrei halda á henni eða hugga hana eða knúsa. Svo það var aldrei spurning um það hvort ég elskaði barnið mitt eða ekki. Ég reyndi allt, nema að setja hana í vöggu og láta hana fljóta niður Glerá með áfastan miða: MUN BÍTA EF ÖGRAÐ.

Svo ég lét hana gráta, og það var fáránlega erfitt, og það er mjög líklegt að ég hafi grátið meira en hún. En þegar það var búið fór hún að sofa í gegnum nóttina - aftur og aftur og aftur. Svo núna ganga hlutirnir vel og ég bíð bara eftir því að hún fari að tala. Og mig grunar að fyrstu orðin hennar verði:

'Afhverju komstu ekki þegar ég grét, mamma?'

'Afþví að mamma elskaði þig ekki, Lilja.'

Núna vill Lilja helst ekki sofa upp í hjá mér, hún er ekki mikið fyrir að kúra og knúsast. Hún gerir mér það sko alveg ljóst. Fyrst var það voða ljúft og ég trúði í einfelndni minni að við myndum kúra tvær saman upp í rúmi þar til Lilja yrði fertug, en svo var hún alveg, veistu mamma.. mér líkar ekki að liggja hérna hjá þér í rúminu þínu sem er alltof stórt. Ég vil fá mitt eigið, takk fyrir.

Svo hún svaf í rúminu sínu við hliðina á mínu, þar sem ég gat strokið henni og kysst hana þegar ég vildi. Hlustað á hana anda og bylta sér. Það gekk í nokkrar vikur, eða þangað til hún tók upp á því að vakna á klukkutíma fresti, standa upp og henda koddanum/snuðinu/bangsanum í mig, sem var hennar leið til að segja. Móðir, nú er kominn tími á að ég fái mitt eigið herbergi. Einnig væri fínt að fá farsíma - og gat í tunguna.

Svo hér erum við, í sínum hvorum enda íbúðarinnar. Knúsumst rétt á morgnana, þegar ég fæ góðfúslegt leyfi frá húsmóðurinni til að strjúka henni og knúsa. 7 mínútum seinna er svo RÆS.

En mikið eru þessar 7 mínútur góðar.

Friday, October 30, 2009

Bannsettir froskarnir.

Fyrir nokkrum vikum síðan, þegar ég var að taka til inn í skáp fann ég eldgamla gúmmí-froskinn sem Lilju var gefinn þegar hún var nýfædd. Hún var svo skelfingu lostin við hann, að ég henti honum ofan í kassa og inn í skáp þar sem hann gleymdist - enda svo sem ekki margt merkilegt við hann. Hann er illa farinn, ljótur og ég er ekki frá því að það sé skrýtin lykt af honum.

Allavega, ég tók froskinn út og henti honum á rúmið á meðan ég þreif skápinn - þar sem ég gleymdi honum svo. Nokkrum dögum seinna rak ég augun í hann þar sem hann lá á gólfinu, við hliðina á rúminu. Já, þið lásuð rétt.. ég sumsé þríf aldrei heima hjá mér! En mér til varnar, fer ég alltaf upp í rúmið sömu megin, og framúr því sömu megin - kenni OCD um það. Mér til mikillar furðu, stökk ég ekki hæð mína af hræðslu og DÓ þegar ég rak augun í kvikindið. Þoli ekki svona gúmmídrasl.

Svo var það einn morguninn ekki löngu seinna, þegar við Lilja lágum upp í rúmi, hálfsofandi að ég missti vitið örlítið. Ég teygði mig í helvítis froskinn og kastaði honum í áttina að Lilju. Afhverju? Afhverju geri ég svona hluti!? Það þarf einhver að grípa inní. Alfa! Hættu að gefa 18 mánaða gömlu barninu þínu ástæður til að vakna upp öskrandi!

Þannig að Lilja FAH-REAKS out. Hún öskrar og skríður næstum því fram úr rúminu, hendir sér á mig og festir sig á handlegginn á mér, eins og ég hafi sveiflað henni yfir laug fullri af hákörlum. Mér auðvitað dauðbrá sjálfri og fór að telja upp þær óteljandi ástæður fyrir því afhverju hún þarf ekki að vera hrædd við kvikindið.

Þetta er gervifroskur, Lilja. Sjáðu, þetta er gúmmí. Þetta er ekki alvöru. Hann finnur ekki til, hann verður ekki dapur. Sjáðu hvernig mamma getur sett allan puttann upp í munninn hans..

Þá fannst mér sniðugt að troða öllum frosknum upp í mig, sem reyndist vera ein sú allra allra versta hugmynd sem ég hef nokkurn tíma fengið. MAMMA, ÞÚ ERT MEÐ FROSK Í MUNNINUM! Ég mátti hafa mig alla við að hrækja útúr mér froskinum og halda í Lilju áður en henni tækist að fleygja sér head first á gólfið og rjúka út.

Ég eyddi svo meiri hluta morgunsins í að sannfæra Lilju um að það væri allt í lagi að snerta bannsettann froskinn. Svo um kvöldið þegar ég var að undirbúa kvöldmatinn, labbar ekki dýrið - Lilja, ekki froskurinn (hann er úr gúmmí) - til mín með kvikindið hálft upp í sér! Svo réttir hún mér hann brosandi, allan löðrandi í slefi - með svip á andlitinu sem getur ekki þýtt annað en: Sjáðu mamma, hvað ég er dugleg.